4.10.2008 | 03:33
Hehe já, þangað til á morgun!
Jú að sjálfsögðu er botninum náð. Það er búið að ná botninum á hverjum degi síðastliðnar vikur og af hverju ætti það að breytast núna? Fréttamenn eru eflaust bara með fyrirfram skrifað blað með óútfylltum reitum sem að þeir fylla út og senda frá sér á hverjum degi:
Krónan féll um ____% í dag og er í sögulegu lágmarki. Evran stendur nú í ____ krónum, dollarinn í ____ krónum og dönsk króna í ____ krónum og hefur ekki verið dýrari síðan _____.
Á hverjum degi heyrum við sama bullið frá ráðamönnum. Geiri segir blablablablasjálfstæðisflokkurinnrúlarblablablablavelmegunblablablaalltverðuræðislegtafturblablabla og blikkar til Dabba. Guðni reynir að koma því að að þetta hafi nú ekki verið svona þegar framsókn var í stjórn. Samfylkingingarfólkið hrópar ESB, ESB en það er ekkert hlustað á það því að það er enginn samfylkingarmaður sem er seðlabankastjóri og svo blandast rauður og blár svo illa. Ég meina, fjólublár? Er það einhver þingflokkur?
Verst er að á meðan á öllu þessu gengur þá hækkar matarkarfan og lánin hjá okkur hinum og ekkert við því að gera. Verslanirnar geta ekki keypt af sínum birgjum sökum gengis og hillurnar tæmast smátt og smátt. Landinn horfir fram á svarta tíma í meðfylgjandi aðgerðarleysi stjórnvalda og varla er hægt að segja til um það hvenær eða hvort við fáum einhverjar fréttir sem létta brúnina eða minnka líkurnar á blæðandi magasári. Það eina sem við getum verið viss um er að á morgun lesum við aftur um það hvernig krónan féll og hvað evran kostar.
Þrátt fyrir allt efnahagslegt vonleysi og krepputal þá breytist allt þegar ég tek mánaðargamlann son minn í fangið á hverjum degi. Þegar ég horfi í stóru, grænbrúnu augun hans og allt í einu þá veit ég að allt verður i lagi hjá okkur í framtíðinni. Hvort sem að krónan fellur eða rís, hvort sem að við verðum hér á Íslandi eða erlendis þá verðum við í lagi á meðan við erum saman. Ég, fallega konan mín og strákurinn okkar.
Góðar stundir
Telur botninum náð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2008 | 22:12
Umferð á gatnamótum!
Nú vona ég bara að allir í Reykjavík fari varlega í hálkunni og flýti sér ekki um of. Ég veit að það er erfitt í Reykjavíkurstressinu að hægja á en ég hvet samt fólk til þess. Ég furðaði mig alltaf á því þegar ég bjó í borginni að um leið og smá snjóföl settist þá sátu allt í einu allir fastir alls staðar. En það sem verra var að mínu mati þá var það hvernig fólk hagaði sér við gatnamót. Það hægist á umferð og stundum svo að það er bíll við bíl, þegar umferðarunann kom svo að umferðarljósum þá er eins og allir hugsi bara um eigin rass. "Það er grænt ljós á mig og þá ætla ég yfir" sama þó að tveir næstu bílstjórar á undan hafi hugsað eins og því sé umferðin stopp þvert yfir gatnamótin. Þ.a.l. stoppar umferð þvers og kruss yfir gatnamótin og það kemst engin eitt né neitt.
Mín ráð eru því einföld: Akið varlega og höldum gatnamótunum hreinum. Þá ætti öll umferðin að ganga betur.
Snjókoma í höfuðborginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2008 | 20:09
Hræðilegt ástand...
Þetta eru svo sem ekki nýjar fréttir eða ófyrirsjáanlegar. Krónan búin að vera í frjálsu falli og fjárstofnanir erlendis búnir að loka á viðskipti með íslensku krónuna. Það eina sem við getum vonað eftir núna er að stjórnin finni leið til að rétta okkur við sem fyrst, ekki að ég sjái það gerast í nánustu framtíð.
Hvort sem að það heitir evra, dollari, svissneskur franki, norsk króna eða fast gengi á íslensku krónuna þá þurfum við að fara að fá að sjá hvert við stefnum og hvort að það verði undir stjórn ríkisstjórn okkar eða seðlabankastjóra sem sjálfskipaðann einræðisvald.
Hlutabréf og króna hríðfalla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2008 | 18:56
Ekki smekklegt!
Já það er misjafn húmorinn hjá fólki. Ekki get ég sagt að mér finnist það fyndin hrekkur að gera út á nýyfirstaðin fjöldamorð í Finnlandi.
Eins og ástandið hefur verið í heiminum undanfarið þ.e. krakkar í skólum út um allan heim beita vopnum til að brjóta sér leið út úr áralöngu einelti og vonbrigðum lífsins, þá er skiljanlega tekið hart á því ef svona tilfelli því óvíst er hvort eitthvað sé fyrir þessu eða ekki.
Vonandi hefur pilturinn lært sína lexíu og passar hvað hann setur á netið í framtíðinni.
Ósmekklegur hrekkur á YouTube | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2008 | 22:35
Dabbi kóngur og sjálfstæðisstrengjabrúðurnar?
Ég vona svo innilega að Jón Ásgeir og félagar nái að rétta úr kútnum en skiljanlega er mikið sjokk að tapa 60 milljörðum. Þar sem að hann og faðir hans eru að mínu mati einhver sú mesta kjarabót sem Ísland hefur verið aðnjótandi þá óska ég þeim alls hins besta. Þeir feðgar hafa byggt upp fyrirtæki sem að Íslendingar mega vera stoltir af og ættu að standa fast við bakið á.
Ég vona bara að þessi sjálfstæðisákvörðun hafi ekki það mikil áhrif á Stoðir að það komi í framhaldi til með að hafa áhrif á Bónus því að ef það gerist þá finnum við landsmenn vel fyrir því. Með stöðugu falli krónunnar sjáum við hvernig matarkarfan hækkar og því ekki á það leggjandi að bæta þessu á blessaða matarkörfuna líka sem Bónus hefur haldið að mestu leiti niðri hingað til.
Hvort að þetta hafi verið einhver persónuleg árás á Baugsveldið skal ég ekki fullyrða en þó þegar ég hugsa tilbaka þá gekk þetta ótrúlega hratt fyrir sig án þess að landsmenn yrðu mikið varir við í hvað stefndi. Ég vona bara að Dabbi Kóngur sitji ekki að tjaldarbaki flissandi með kampavínið í annarri og sjálfstæðisstrengjabrúðurnar í hinni. Það væri hálf ómanneskjulegt.
Telur Stoðir ekki fara í þrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2008 | 19:03
Heimsmet í skuldum?
Við Íslendingar erum nú alltaf að grobba okkur yfir því að eiga hin og þessi heimsmet miðað við höfðatölu. Nú hljótum við að eiga heimsmetið í skuldasöfnun miðað við það að þessi skeinipappír sem að við notum sem gjaldmiðil fellur og fellur. Árangurslausar tilraunir við að styrkja ástandið virka náttúrulega ekki nema þá tímabundið og ráðamenn þjóðarinnar eru hættir að koma fram með hjartastillandi pistla um að ástandið sé bara tímabundið.
Glitnir fór á hausinn og í stað þess að láta hann húrra sína leið þá greip ríkið inní og núna þarf þjóðin að borga pakkann í staðinn fyrir að forsvarsmenn Glitnisbanka sætu einir í súpunni. Þar sem að viðskipti Glitnis virðast hrynja og allir flýja bankann eins rottur af sökkvandi skipi þá get ég ekki séð í augnablikinu að ríkið hafi gert góða fjárfestingu með peningum landsmanna. Fyrirtæki sem eru að fara á hausinn geta varla gefið vel af sér og því síður þegar sögur af því breiðast eins og eldur í sinu og fjármagn dregst af því litla sem eftir var.
Krónan virðist ekki ætla að styrkjast á næstu mánuðum og ég hreinlega skil ekki hversu lengi við þurfum að sitja undir þessu án þess að stöðugri gjaldmiðill sé ítarlega skoðaður. Hvaða gjaldmiðill sem er. Persónulega finnst mér landið og miðin svo opin hvort sem er að ESB hljómar ekkert skelfilega eins og málin standa í dag.
Ef áfram heldur sem horfir hræðist ég að við Íslendingar komum ekki til með að eiga neina peninga eftir og þurfum að selja landið fyrir slikk til þeirra sem höfðu varann á og skiptu yfir í stöðugri gjaldmiðil fyrir lifandis löngu.
Krónan veiktist um 5,3% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.9.2008 | 23:18
Byrjar vel...
Já þetta líst mér á. Mínir menn á Akureyri að leggja Stjörnuna. Vona bara að þetta verði áframhaldið í vetur og Þórsarar komi til með að brillera í deildinni.
Þórsararararar
Njarðvík átti ekki í vandræðum með Blika | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2008 | 19:44
Hleypur ríkið þá til fyrir mig???
Óttast keðjuverkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2008 | 19:03
Núnú?? Á ég þá hlut í Glitni semsagt?
Jahérna. Glitnir bara farinn á hausinn já og ríkið hleypur upp til handa og fóta til að bjarga málunum. Ég er nú með ákveðna skoðun á þessu máli og tel að ríkið ætti ekki að hlaupa til með dúnpúðann svo að Glitnir litli meiði sig ekki í bossanum við fallið. Fremur tel ég að ríkið ætti að losa viðskiptavini Glitnis undan þessu yfirvofandi rigningarskýi og bjóða þeim flutning með sín mál í annann banka og láta svo Glitni bara reka lönd og leið. Ef að þeir gátu ekki haldið betur á spilunum þá er það ekki þjóðarinnar að borga reikninginn en það er jú þjóðin sem þarf að standa skil á 75% kaupum ríkisins á Glitnisbanka.
Þetta minnir óneitanlega á þann aðila sem tekur alltof há lán, lifir svo hátt á VISA, rennur á rassinn með allt saman og svo eiga mamma og pabbi (háöldruð) að borga því að þau voru ábyrgðarmenn. Það sem að mamma og pabbi áttu að gera var að hugsa um barnabörnin og gera svo ekkert meira fyrir þennann aðila og láta hann súpa seiðið af sínum eigin eyðsluskap.
Svo kemur nú að öðru máli og það eru laun glitnismanna. Ég trúi því varla að þeir fái að halda sömu launum eftir þessa gloríu. En svo er það líka spurning hvort að það sé ekki í höndum okkar Íslendinga að ákveða laun þeirra þar sem að við erum víst uppistaða ríkisins. Ætti ekki bara að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um launagreiðslur þeirra?
Annars var það líka annað sem að vakti áhuga minn. Að taka upp evruna hér á landi virðist vera af og frá en samt kemur ríkið hlaupandi inn með 600 miljónir EVRA eða 84 miljarða króna. Stingur þetta ekki í augu neins annars en mín?
Stjórnendur Glitnis hefðu mátt fara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2008 | 21:33
Frábært ... og skiljanlegt.
Ofsalega lít ég upp til íbúa Akranes þegar ég les um hvað er verið að gera fyrir flóttafólkið nýflutta. Þau hafa verið boðin velkomin frá innstu hjartarótum og Akurnesingar boðnir og búnir til að aðstoða. Og það nýjasta að þau fengu gefins gerfihnattadisk til að fylgjast með fréttum frá heimalandinu. Þetta skil ég ákaflega vel. Þrátt fyrir að þau séu nýbúar á Íslandi þá eru þau frá Palestínu og vilji fylgjast með gangi mála þar er bara mannlegt.
Þetta þekki ég vel af eigin raun þar sem ég var um tíma í skóla í Þýskalandi og var svo búsettur í Austurríki. Þó að ég væri þarna úti og gerði mitt besta með að aðlagast samfélaginu þá sóttist ég alltaf eftir að fá fréttir heiman að frá Íslandi. Þetta þekkja eflaust fleiri. Ég þekki þetta reyndar líka af því að konan mín er ekki íslensk og saman höfum við tekist á við þá árekstra sem geta skapast.
Það er leiðinlegt að lesa um það þegar fólk vill bara senda nýbúa aftur heim til sín af því að skoðanir þeirra stangast á. Ég vil meina að allir séu velkomnir til okkar fallega lands svo lengi sem fólk er ekki að brjóta lögin alvarlega eða að þröngva sínum siðum inn á annað fólk. Fínt að hafa sína siði og iðka þá svo lengi sem það er ekki einhver votta jehóva háttur á. Vona að fólk skilji mig.
Ég vona bara að hinir nýju Íslendingar geri sitt besta til að aðlagast samfélaginu okkar hérna á Íslandi og að sama skapi að við reyndari Íslendingar gefum þeim tíma og svigrúm til að aðlagast.
Flóttafólkið fékk gervihnattadisk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)